♦ Listamaður kvaddur. Sá góði drengur og fjölhæfi listamaður Þorvaldur Þorsteinsson var jarðsunginn í dag. Hann var afkastamikill á svo undramörgum sviðum listanna og ógleymanleg persóna.
Haustið 2001 héldu bókateiknarar sýningu á myndlýsingum í tengslum við fyrstu Mýrarhátíðina: Köttur úti í mýri. Við báðum Þorvald um að skrifa inngang í sýningarskrá sem hann taldi ekki eftir sér. Pistillinn var í senn upplífgandi hvatning og brýn gagnrýni, eins og vænta mátti frá Þorvaldi. Greinin er enn í dag holl lesning sem á erindi til teiknara, rithöfunda og bókaútgefenda:
„Í upphafi var …
Hér á árum áður, þegar ég vildi láta taka mig alvarlega í fínni lummuboðum, viðraði ég gjarnan áhyggjur mínar af minnkandi bóklestri meðal þjóðarinnar. Nefndi til sögunnar aukið flæði myndefnis á kostnað texta og varaði við þeirri óheillaþróun sem birtist í forheimskandi, gagnrýnislausri myndmötun í stað hins þroskandi samneytis við Orðið. Þessi einstrengingslega afstaða átti sér upptök í pólitískum rétttrúnaði áttunda áratugarins, sem varaði við öllu sem litríkt gat talist og bannaði Strumpana. Allt sem hróflaði við hinni helgu bók, gerði hana aðgengilegri eða ummyndaði á einhvern hátt, var til þess fallið að gera okkur og börnin okkar að þrælum afþreyingariðnaðar og peningaplokks. Það sannaðist hins vegar nokkrum árum síðar á undirrituðum að „þetta, sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann …“ En það er önnur saga.
Við höfum fengið að lifa merkilegar breytingar hin síðari ár. Við vitum núna að eitt þarf ekki að útiloka annað. Við vitum að það er hægt að glæða áhuga á því stóra með því smáa. Að með einföldum lyklum getum við uppgötvað dýrmæta sjóði. Að læsi okkar á einu sviði lífsins getur hjálpað okkur á öðru, hvort sem það felst í þekkingu á teiknimyndasögum eða viðurkenndum bókmenntaverkum. Þannig er okkur smám saman að lærast að njóta þess ríka myndmáls sem heimur okkar býr yfir fremur en líta á það sem ógn við önnur form. Gott ef það hefur ekki jafnframt rifjast upp hvernig myndmálið var í árdaga forsenda frásagnarinnar og ritmálsins. Hvorki meira né minna.
Teikning í bók getur opnað leið inn í textann og út úr honum aftur. Hún getur vakið grun, strítt og truflað, kveikt hugmyndir og kenndir sem enginn texti þekkir og á góðum degi jafnvel orðið textinn sjálfur. Hún getur sagt minna en ekkert og meira en orð fá lýst. Allt þetta hafa íslenskir teiknarar á valdi sínu, sem betur fer, því hlutverk þeirra í íslenskum bókmenntum hefur aldrei verið öflugra en núna.
Hafi nefndur skilningur á mikilvægi myndmálsins skilað sér í raðir íslenskra útgefenda hljóta þeir að hvetja til nánari samvinnu teiknara og höfunda á komandi árum. Við hljótum öll að vilja sjá ný verk þar sem sköpunarkraftur teiknarans nýtist bókverki í frjóu samspili frá fyrsta degi. Ekki eingöngu eftir að handriti er skilað. þetta er nefnilega svo einfalt: Um leið og við hættum að hugsa um framlag teiknarans sem misgóða „skreytingu“ við fyrirfram gefinn texta „höfundarins“, eins og gert var til skamms tíma, þá rifjast upp jafn augljós sannindi og þau að teikningin getur ekki aðeins sótt forsendur sínar í textann, hún getur líka orðið til jafnhliða textanum í innra samspili tveggja höfunda og síðast en ekki síst getur hún verið sjálfur útgangspunkturinn. Uppspretta frásagnarinnar. Rétt eins og var í upphafi.“
Þorvaldur Þorsteinsson
♦ Artist Þorvaldur Þorsteinsson was buried today. He will be greatly missed.