
♦ Ljóðstafur Jóns úr Vör. Í gær, 21. janúar 2017, voru liðin hundrað frá fæðingu Jóns úr Vör og markaði dagurinn upphaf ljóðahátíðarinnar Dagar ljóðsins í Kópavogi. Hátíðin stendur frá 21.- 28. janúar og hófst með hátíðlegri athöfn í Salnum þegar Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur, en allt frá árinu 2002 hefur lista- og menningarráð Kópavogs hefur staðið að árlegum ljóðaverðlaunum i minningu skáldsins.

Fríða Ísberg, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Áslaug
Um tvöhundruð og sextíu ljóð bárust í keppnina að þessu sinni og valdi dómnefndin tíu ljóð, þrjú sem fengu verðlaun og sjö sem fengu viðurkenningar. Ljóðstafinn hlaut Ásta Fanney Sigurðardóttir fyrir seiðmagnaða ljóðið „Silkileið nr. 17“. Í öðru sæti var ljóðið „Hrogn og lifur“ eftir Áslaugu Jónsdóttur og í þriðja sæti „Funalind“, firnafínt ljóð eftir Fríðu Ísberg. Sjö höfundar hlutu viðurkenningar fyrir ljóð sín: Áslaug Jónsdóttir (fyrir ljóðið „Áform“), Elías Snæland Jónsson, Dagur Hjartarson, Margrét Þ. Jóelsdóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Þuríður Elfa Jónsdóttir.
Þá var einnig tilkynnt um úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi og þar hlutu stórgóð ljóð verðskuldaða viðurkenningu.
Um leið og ég þakka fyrir verðlaun og viðurkenningu óska ég Kópavogsbúum og nærsveitafólki til hamingju með Daga ljóðsins. Það er einnig ástæða til þess að benda á glæsilega heildarútgáfu á ljóðum Jóns úr Vör sem Dimma gefur út í tilefni aldarafmælisins og óska aðstandendum til hamingju með skínandi fallega prentgripi og vandað verk.
Neðst í færslunni má lesa ljóðin Hrogn og lifur og Áform.
♦ Acknowledgement for poetry: I’m very happy to announce that a couple of poems I wrote did well in a competition for The Jón úr Vör Poetry Award, an annual poetry contest. The Award ceremony was held yesterday on the birthday of poet Jón úr Vör and was a part of the poetry festival Dagar ljóðsins in Kópavogur, celebrating poems and art of the word for a whole week.
Ásta Fanney Sigurðardóttir won first prize for her wonderful poem “Silkileið nr. 17″. “Hrogn og lifur” (e. Roe and liver) by Áslaug Jónsdóttir received second prize and Fríða Ísberg won third prize for the excellent poem “Funalind”.
Seven poems got special acknowledgement, poems by the following authors: Áslaug Jónsdóttir – for the poem Áform (e: Intention), Elías Snæland Jónsson, Dagur Hjartarson, Margrét Þ. Jóelsdóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Þuríður Elfa Jónsdóttir.
At the bottom of the post are these two poems of mine: Hrogn og lifur (Roe and liver) and Áform (Intention).
Tenglar | Links:
RÚV – Þáttur Jórunnar Sigurðardóttur, Orð um bækur, um Jón úr Vör og viðtal við verðlaunahafa: hér.
RUV radio program about poet Jón úr Vör and interview with the prizewinners in RUV: here.
Listi Borgarbókasafns yfir fyrri verðlaunahafa. | List of earlier winners.
Frétt á vef Dimmu um heildarútgáfu á ljóðum Jóns úr Vör | Dimma publisher of Jón úr Vör poetry collection.

Ármann Kr. Ólafsson, Fríða Ísberg, Áslaug Jónsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir – handhafi Ljóðstafsins, Karen E. Halldórsdóttir og Anton Helgi Jónsson formaður dómnefndar. Ljósmynd @ Ljóðstafur Jóns úr Vör / Kópavogsbær
Hrogn og lifur
– Hvaðan utan af landi ertu?
spurði fisksalinn
það var eitt og hálft kíló af hrognum
á milli okkar
og sambandið ekki alveg augljóst
en víst að ég þekkti
innyfli frá dauðyfli
og svarið sendi hugann yfir fjörð
með nokkur forskeyti
í
við
á
úr
frá
en ég deildi ekki um það
– sem sagt ekki í hundraðogeinum í uppeldinu
bætti hann við
og ég sem fagnaði ung og oft
í hundraðogeinum
mundi ekki hvar uppeldið endaði:
– nei
– þá viltu víst lifur?
sagði hann
og hrærði í fatinu
en ég datt inn
í póstnúmer pempíunnar:
– nei takk, það gerir brjóstsviðinn,
skilurðu
hann þerraði fituga höndina
og var létt:
– þetta er heldur ekki mannamatur
hún er full af ormum og ógeði, lifrin
með áhyggjur af hlýnun sjávar
úrkynjun og ormaveitum
og afgreiðslumanni í fiskverslun
sem var of hreinskilinn fyrir starfið
gleymdi ég að spyrja:
– hvaðan utan af landi ertu?
Áslaug Jónsdóttir. Ljóðstafur Jóns úr Vör: 2. verðlaun 2017.
Áform
Að næturþeli
löngu áður en birtir
raða ég upp
góðum áformum
skynsamlegum áætlunum
og einlægum ásetningi
eins og kórdrengjum
til þess eins
að skjóta þá niður
einn í einu
við dögun.
Áslaug Jónsdóttir. Ljóðstafur Jóns úr Vör: Viðurkenning 2017.