Tove Jansson 100 | Jansson’s Anniversary

TJSimmarPOJ

♦ Tove JanssonÍ dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Tove Jansson. Bækurnar hennar um múmínálfana hittu mig strax í hjartastað og list hennar hefur alla tíð höfðað sterkt til mín. Auðvitað komst ég fyrst að því á fullorðinsárum hve fjölhæfur og margslunginn listamaður hún var.

Fyrir allmörgum árum þýddi ég að gamni nokkra kafla af Sumarbókinni sem mér vitanlega hefur aldrei komið út á íslensku. Ég hef þó komist að því síðar að bókin hefur í reynd verið þýdd og lesin í útvarpi: sumarið 1979 var þýðing og upplestur Kristins Jóhannessonar flutt í Ríkisútvarpinu. Hvers vegna var/er hún ekki gefin út? Ég bið þýðendur velvirðingar á þessu gamni mínu, en birti hér fyrir neðan fyrsta kaflann til heiðurs afmælisbarni dagsins. Takk Tove!

♦ Tove JanssonToday is Tove Jansson’s 100th anniversary – a truly wonderful artist that I have admired ever since I first got to know her mumintrolls as a kid. If you don’t know her work I reccomend two nice websites: Anniversary website and Tove Jansson – Virtual museum and life story.

Some years ago I translated few chapters from Jansson’s marvelous book The Summer Book. Just for fun and perhaps a little bit out of frustration over that this beautiful book was not yet published in Icelandic. I have later found out that it has in fact been translated into Icelandic (and read in the radio in the summer 1979) by a fine translator, Kristinn Jóhannesson. Please publish! Below is my humble translation of the first chapter into Icelandic. Thank you Tove!

Morgunsund

Það var snemma morguns mjög heitan dag í júlí og það hafði rignt um nóttina. Hitamistur steig upp frá berum klöppunum en vætan sat í sprungunum og mosanum og allir litir voru orðnir skýrari og dýpri. Fyrir neðan veröndina var gróðurinn enn í skugga, rakur eins og í regnskógi, þétt, krangaleg blöð og blóm sem hún reyndi að brjóta ekki á meðan hún leitaði með höndina fyrir munninum og allan tímann hrædd um að missa jafnvægið.

– Hvað ertu að gera?“ spurði Sophia litla.
– Ekkert, svaraði amma hennar. Eða öllu heldur: hreytti hún í hana. – Ég er að leita að fölsku tönnunum mínum.
Barnið kom niður af veröndinni og spurði rólega: – Hvar týndirðu þeim?
– Hér, sagði hún. – Ég stóð einmitt hér og þá duttu þær einhvers staðar niður í bóndarósirnar.
Þær leituðu saman.
– Ég skal, sagði Sophia. – Þú getur varla staðið í fæturna. Færðu þig.
Hún stakk sér undir laufþak blómanna og skreið á milli grænna stilkanna. Þarna niðri var notalegt og forboðið, svörðurinn svartur og mjúkur og þar lágu tennurnar, hvítar og skínandi, heil munnfylli af gömlum tönnum.
– Ég fann þær! æpti barnið og stóð upp. – Settu þær í þig.
– En þú færð ekki að horfa á, sagði amman. – Svona nokkuð er prívat.
Sophia hélt tönnunum fyrir aftan bak. – Ég vil fá að horfa á, sagði hún. Þá skellti amma hennar tönnunum upp í sig í einum hvelli. Það var auðvelt og eiginlega ekki neitt merkilegt.
– Hvenær deyrðu? spurði barnið.
Og hún svaraði: – Bráðlega. En það kemur þér ekki nokkurn skapaðan hlut við.
– Afhverju? spurði barnið þá.
Hún svaraði ekki, hún gekk út á klappirnar og áfram í átt að nesinu.
– Þetta er bannað! gargaði Sophia.
Sú gamla svaraði með fyrirlitningu: – Ég veit. Hvorki þú eða ég megum ganga út á klettana en nú gerum við það samt því pabbi þinn sefur og veit ekkert um það.
Þær gengu út á klappirnar. Mosinn var sleipur en sólin hafið risið dálítið upp á himininn og nú gufaði upp af öllu, eyjan var sveipuð sól og þokuslæðu og var ægifögur.
– Grafa þeir gröf? spurði barnið vingjarnlega.
– Já, svaraði hún. Stóra gröf. Og bætti svo lymskulega við: Svo stóra að það er pláss fyrir okkur öll.
– Afhverju það? spurði barnið.
Þær gengu áfram út á nesið.
– Svona langt hef ég aldrei farið, sagði Sophia. – En þú?
– Nei, sagði amma hennar.

Þær gengu alla leið út á ystu nöf þar sem klettarnir féllu fram í æ myrkari syllum, hver og ein prýdd grænu kögri af þangi, sem bylgjaðist fram og aftur með hreyfingum vatnsins.
– Ég vil synda, sagði barnið. Hún beið eftir mótbárum en þær létu á sér standa. Þá byrjaði hún að klæða sig úr, hægt og uggandi. Maður getur ekki treyst þeim sem bara leyfa öllu að gerast. Hún stakk fæti í sjóinn og sagði: – Hann er kaldur.
– Auðvitað er hann kaldur, sagði gamla konan annars hugar. – Á hverju áttirðu von?
Barnið óð áfram út í upp að mitti og beið í ofvæni.
– Syntu, sagði amma hennar. – Þú kannt að synda.
Hér er djúpt, hugsaði Sophia. Hún er búin að gleyma að ég hef aldrei synt í djúpu vatni án þess að hafa einhvern með mér. Og þess vegna óð hún aftur í land, settist á klettana og útskýrði: – Það verður greinilega gott veður í dag.
Sólin hafði risið hærra. Öll eyjan sindraði eins og hafið og blærinn var ferskur.
– Ég kann að kafa, sagði Sophia. – Veistu hvernig maður kafar?
Amma hennar svaraði: – Það veit ég vel. Maður bara sleppir taki á öllu, tekur stöðu og bara kafar. Maður finnur með fótunum fyrir þangbrúskunum, þeir eru brúnir og vatnið er tært, bjartara fyrir ofan, með loftbólum. Maður smýgur vatnið. Maður heldur niðri í sér andanum og smýgur og snýr sér og stígur upp, lætur sig stíga upp á við og andar út. Og svo flýtur maður. Bara flýtur.
– Og allan tímann með opin augun, sagði Sophia.
– Auðvitað. Enginn manneskja kafar án þess að hafa augun opin.
– Trúirðu að ég geti gert það án þess að ég sýni þér? spurði barnið.
– Já, já, sagði amman. – Klæddu þig nú, þá verðum við komnar heim áður en hann vaknar.

Fyrstu þreytumerkin gerðu vart við sig. Þegar við komum heim, hugsaði hún, þegar við erum komnar inn aftur, þá held ég að ég fái mér blund. Og ég verð að muna að segja honum að barnið sé ennþá hrætt við djúpt vatn.

Þýtt úr Sommarboken eftir Tove Jansson.
Ljósmynd | Photo: http://www.tove100.com/presskit/images/TJ_Simmar_POJ.jpg