♦ Sýning. Á sunnudag, 1. desember, opnar sýningin „Jólapakkinn minn …“ á Skörinni, sýningarrými Handverks og hönnunar í Aðalstræti 10. Tuttugu hönnuðir og listamenn sýna jólapakka af öllum stærðum og gerðum, frá 1. desember 2013 til 7. janúar 2014. Og ég tek þátt í sýningunni með dyggri aðstoð litla og stóra skrímslisins!
Ég hafði tvennt í huga þegar ég útbjó pakkana fyrir sýninguna: annars vegar bækur og hins vegar endurvinnslu. Ég gef oftast bækur í jólagjöf og stundum eru það reyndar mínar eigin bækur. (Þetta hafa ættingjar og vinir þurft að þola). Skrímslabækurnar eru auðþekkjanlegar í laginu og þegar innhald gjafarinnar er svo augljóst hef ég kannski bara brugðið slaufu utan um bókina. En nú reyndi ég að vanda mig aðeins meira …
Eins og mörgum óar mér gjafapappírsflóðið um jólin. Það er eitthvað alveg galið við að rífa fallegan pappír í tætlur og henda í ruslið. Ég átti dágott safn af gömlum, notuðum jólapappír og ákvað að endurvinna hann. Umbúðirnar eru því einskonar pappírsdúkur sem er ofinn úr notuðum jólapappír. Slaufur á pökkunum eru líka úr endurunnum gjafapappír. Sumstaðar er pappírinn svolítið snjáður eða krumpaður, en hvað gerir það til? Litla skrímslið og stóra skrímslið eru hæstánægð með gjafirnar og koma færandi hendi. Þau vita að bók er best!
♦ Exhibition. I am participating in the exhibition „Jólapakkinn minn …“ (My Christmas Parcel) at CRAFT AND DESIGN in Aðalstræti 10, Reykjavík. Twenty designers and artists show creative Christmas packaging and wrapping design. My theme is recycling and books, since there is no Christmas without books under the tree! The gifts are wrapped up in recycled, woven Christmas wrapping paper, with paper bows from recycled paper. The books are represented by the characters from the Monster series, who had a hand in whole process …
The exhibition opens Sunday, 1. Dec and is open until 7. January 2014. Go take a look!