Röddin á Bessastöðum | The voice of a president

MSTogASM©AslaugJ

♦ Forsetaframboð – Röddin á Bessastöðum: Á morgun velja Íslendingar nýjan forseta og er það löngu tímabært. Undanfarnar vikur hafa ýmsir góðir frambjóðendur háð skemmtilega og áhugaverða kosningabaráttu og þar hefur fáa skugga borið á, ef undan er skilinn lokadans fráfarandi forseta. Útspil hans var hneisa sem lengi verður minnst, ekki síst furðuleg tilraun til að útnefna ólíklegan erfðakóng og þar með forsmá lýðræðið. Vítin eru til varnaðar og það er kominn tími til kveðja gamla pólitíska klækjarefi og velja forseta framtíðar: nýja rödd á Bessastaði. 

Það gladdi mig innilega þegar Andri Snær Magnason tók stökkið og bauð sig fram til forseta. Ég heyrði á sumum að þeir efuðust um þessa rödd: já, var hann ekki hálf óskýrmæltur, þessi rithöfundur? Enn aðrir sögðust ekki botna í skáldinu. Fáir hafa þó talað skýrar en Andri Snær Magnason. Hér er rödd sem talar fyrir menningu og vísindum, mannúð, sjálfbærni og náttúruvernd.

Ekki hafa allir snúið daufum eyrum við málflutningi Andra Snæs í gegnum tíðina en á hinn bóginn eru þeir til sem líta á viðleitni fólks til þess að vernda náttúruna sem hinn versta löst. Er það raunin, eru virkilega til hreinræktaðir andstæðingar náttúruverndar á Íslandi? Hvaðan kemur þessi ótti? Er það þetta óttaslegna fólk sem við viljum að ráði för og ákvarði næstu skref okkar inn í framtíðina? 

Ég kynntist Andra Snæ fyrir um átján árum, ungu ljóðskáldi sem var að skrifa sína fyrstu barnabók. Við áttum gott og gjöfult samstarf um bókverkið Söguna af bláa hnettinum. Ég þekki líka hans góðu og greindu spúsu, Margréti Sjöfn Torp, en bæði hafa þau hjónin haft fingurinn á púlsi þjóðarinnar, hjúkrunarfræðingurinn Margrét í bókstaflegri merkingu, en Andri Snær hefur greint þjóðarsálina og samtíma okkar af meiri skarpsýni en flestir.

Ég veit ekki til þess að Andri hafi neina dulræna hæfileika eða sæki leiðarljós sín til æðri máttarvalda, en hann er engu að síður einn af þessum sjaldgæfu mönnum sem sjá inn í framtíðina, um leið og hann hefur sterkar taugar til fortíðar, sögu okkar og menningar. Hann er í eðli sínu brauðryðjandi hugmynda og skapandi vísindamaður, með víðtæka reynslu af samskiptum við fólk úr öllum heimshornum og fjölbreyttum kimum samfélagsins. Og það sem mest er um vert: fáa þekki ég sem eru fúsari til þess að hlusta og meðtaka ólíkar skoðanir með opnum huga, greina og fanga nýjar hugmyndir og fersk sjónarhorn.

Margir stuðningsmenn Andra Snæs hafa valið slagorðið „að kjósa með hjartanu“. Þetta hefur farið fyrir brjóstið á sumum sem telja aðra frambjóðendur vænni kost. Með þessu er þó ekki verið að saka aðra kjósendur um kaldlyndi. Undir slagorðinu hafa viðkomandi einfaldlega hafnað því vali að kjósa af kænsku eða láta útreikninga líkinda ráða atkvæði sínu. Valkostir eru vissulega allmargir og atkvæði kunna að dreifast, en það er að minnsta kosti óhæft að kjósa með „merarhjartanu“, af ótta við gamla forpokaða drauga. Þess háttar ráðstöfun yrði að kallast heldur dapurleg þátttaka í lýðræðinu. 

Á ögurstundu í Sögunni af bláa hnettinum býðst söguhetjunni að bjarga börnunum hinum megin á hnettinum en þarf þess í stað að velja á milli stálhjarta eða steinhjarta. Það fer þó ekki svo, söguhetjan nær sínu fram og heldur hjartanu. Á morgun þurfum við heldur ekki að velja stál eða stein, sem oftar eru það heilindin og kraftur hugmyndanna sem skipta sköpum.

Ég skora á Íslendinga að sýna kjark og kjósa af sannfæringu hugsjónamanninn, náttúruverndarsinnann og mannvininn Andra Snæ Magnason. 

á Jónsmessu 2016,
Áslaug Jónsdóttir

Steinhjarta-stalhjarta-©AslaugJ

♦ President election in Iceland: Above written is my statement of support for a fellow writer and a friend: Andri Snær Magnason, who is running for President of Iceland. I think Andri Snær would be a great president, a new fresh voice in that office, a voice that not only Iceland needs but the world community as well. Iceland may not be a powerful country but we sure can have a strong voice, a passionate and a spirited one. Andri Snær Magnason has such a voice.