♦ Skilaboð: Röddin er rám og hóstaköstin héldu fyrir mér vöku í nótt. Ég ligg í flensu og finnst smávegis sjálfsvorkunn og dekur við hæfi. Held mig heima. Kannski hækka ég hitann á ofninum. Skrúfa frá krana, hita vatn og fæ mér te. Fæ mér hressingu úr ísskápnum sem er í það minnsta hálffullur af mat. Fer í heita sturtu. Kúri undir sæng og vinn þar á fartölvuna. Drep tímann með vafri á vefnum. Allt svo ómerkilega venjulegt. Og allt lúxus.
Ég velti því fyrir mér hvernig mér liði ef ég þyrfti að pakka í tösku og flýja heimili mitt. Núna. Ef ég ætti ekki afturkvæmt um ókomna tíð. Ef ég þyrfti að flýja ofbeldi og ógnir, hungur, stríð. Kvefpest væri þá kannski lítilmótlegt vandamál – eða öfugt: yrði að lífshættulegu ástandi. Hvað myndi ég afbera lengi að búa í skúr, í tjaldi – einhvers staðar án allra þæginda, án rennandi vatns, án hita og rafmagns; búa við skort á hreinlæti og fábreytt, lélegt fæði? Búa við óbærilegar aðstæður í flóttmannabúðum sem eru oftar nær því að vera fangabúðir því enginn eða fáir komast þaðan. Búa við æpandi skort á framtíð.
Ég geri ekki ráð fyrir því líf mitt sem flóttamaður yrði langt. Það má auðvitað segja að farið hafi fé betra og að heimurinn yrði hreint ekki verri án mín. Það er laukrétt. En það væri brjálæðislegt að snúa þeirri hundalógik upp á alla þá flóttamenn sem berjast fyrir lífi sínu og þurfa að flýja heimili og ættjörð.
Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki minn eini lúxus í augnablikinu að geta legið heima í rúmi þegar flensan hrjáir mig. Ég þarf heldur ekki vinna við lög og reglur sem hamla því að við sýnum örlæti gagnvart fólki á flótta. Að ákvarða um örlög annarra getur ekki verið létt verk. Flest erum við þó afkomendur einhvers konar flóttamanna.
Samfélag okkar er hvorki algott eða alvont. Það er í sífelldri mótun. Við erum einatt ósammála og ósamstíga, við látum of oft reka á reiða og klúðrum því að deila auði og lífsgæðum á sanngjarnan hátt. Við förum kæruleysislega með auðlindir okkar, náttúru og lýðræði. Aðstæður okkar eru þó hrein hátíð hjá því sem flest flóttafólk þarf að búa við. Við erum aflögufær. Við getum hjálpað því við myndum vilja að okkur væri hjálpað. Við eigum að geta tekið á móti fólki sem biður um það eitt að fá tækifæri til þess að lifa og búa við það öryggi sem felst í ómerkilega venjulegu lífi.
Skilaboðin um neyðina hafa ekki farið framhjá okkur, er það? Við vitum. Skipin koma stöðugt að landi. Svona þægilega fjærri okkur! En þó tekst sumum að brjótast alla leið til Íslands. Og nú eru að koma jól … það er sungið um frið og ljós og fjölskylduna sem hraktist um í Betlehem. Um leið og við spreðum í veisluhöld eins og enginn sé morgundagurinn rekum við börn á gaddinn. Finnst okkur það virkilega í lagi? Gerum þessar undanþágur sem til þarf og sýnum miskunn.
Njótið heil jólaföstu.
Mæli með myndbandinu hér fyrir neðan: Every Shirt Matters – unnið af Studio Flox.
♦ Message: Sorry, no translation available. This is just my rant in a fog of flu – a message from a bottle of cough-mixture: few thoughts on refugees of war and disasters. I recommend the short video from Studio Flox below.
Every Shirt Matters from Studio Flox on Vimeo.