Að taka upp hanskann | Yes, we have lost it …

Haustið 2020: Síðsumars skrifaði ég um þá von okkar flestra að ná mætti covid-19 smitum niður með hertum sóttvarnaraðgerðum, bæði á landamærum og innanlands. Sú von brást og við erum öll frekar pirruð og vonsvikin. Það er erfitt að sætta sig við að búa í heimi hrelldum af pestarfári og horfast í augu við gjörbreytta tíma. Á Íslandi var kannski eins og okkur þætti faraldur af þessu tagi tilheyra fyrri tímum: eins og svart-hvítar myndir frá liðinni öld eða galdrafár á miðöldum. Við treystum því að vísindin, lyf og hátækni reddi okkur í gegnum alla erfiðleika, og það mun vissulega fara svo, bara of seint fyrir suma.

Núna í miðri smitbylgju haustsins er því miður ekki annað hægt en að gefa okkur falleinkunn í almennri skynsemi og smitvörnum. Eftir vellukkað „átak“ vorsins gleymdum við góðum siðum og keyrðum allt í gang. Skolli sem við stóðum okkur vel í vor. Við erum góð í að redda okkur í spretthlaupunum. En svo tók kæruleysið við. Þetta varð vandamál einhverra annarra en okkar sjálfra. Útlendingar og utanbæjarfólk gátu tekið til sín sóttvarnarráðin. Sumir voru ævinlega hvergi bangnir. Til dæmis konan sem kom hlaupandi og skaut sér inn í lyftu með mér þegar pestin var hvað verst í vor og svaraði másandi þegar ég spurði hvort hún vildi ekki taka þá næstu: „Nei, ég er sko ekki hrædd við að fá kóvíd.“ Nei. Einmitt. Takk.

Ég studdi og styð enn allar sóttvarnaraðgerðir – sem eru hér reyndar alls ekki eins harðar og í mörgum löndum – og ég held að yfirvöld hafi yfirleitt brugðist rétt við. En „tilmæli“ og „traust“ er greinlega ekki nóg. Við reyndumst ekki traustsins verð. Nú þegar sóttvarnarlæknir er gagnrýndur fyrir of hörð viðbrögð vil ég taka upp hanskann fyrir heilbrigðisyfirvöld sem velja hinn óvinsæla kost: fyrirbyggjandi aðgerðir. Helsta röksemdin gegn þeim eru áhrifin á samfélagið allt, fórnarkostnaðurinn við hægagang í „hjólum atvinnulífsins“. Skilningsleysið á hinum raunverulega fórnarkostnaði við veikindi og dauðsföll covid-sjúklinga og tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið – fólkið sem vinnur þar – virðist alger. Menn eru kokhraustir, alveg þar til pestin snertir þá sjálfa.

Framtíðarspurningin, sem við eigum svo eftir að svara, er hvernig við ætlum og verðum að breyta lífsháttum okkar til að takast betur á við fleiri uppákomur af þessu tagi, því þær munu koma: hamfarir sem allar tengjast mislukkaðri umgengni okkar við náttúruna. Eins gott að hjól atvinnulífsins viti þá hvert þau eiga að snúa.

Autumn 2020: (Sorry, no translation for my main blog post this time). After getting covid-19 infections down to zero this summer in Iceland, we are now in high alert and the infections rate is as bad as last winter/spring, if not worse. I am a supporter of stricter rules, social distancing and what ever takes to keep the epidemic tolerably at bay in Iceland. We will get through this, but we will also have answer serious questions about our future, on how we must change our way of life to better deal with more incidents and disasters of this kind, because they will come: and they are all related to our failing relationship with nature, as well as social injustice. We know this, and we will have to find the “new normal”.

🎯 Myndin: tökum okkur á í sóttvörnum, en munum að hirða upp hanskana! Vinnum gegn plastmengun!
🎯 The photo: Stay safe but keep up the fight against plastic pollution!

Ljósmynd tekin | Photo date: 22.09.2020