
Skoðun: Nú kallað eftir hagrænu uppgjöri vegna covid-19 farsóttarinnar og áhrifum mismikilla sóttvarna. „Stjórnvöld eiga nú að segja hvað þau vilja,“ er haft eftir Kára Stefánssyni. Þá er eins gott að fólk láti í sér heyra. Hvað viljum við? Getum við komið því til skila til fulltrúa okkar? Ég vil taka undir með þeim sem styðja auknar sóttvarnir. Við höfum misst fólk úr covid-19 og alltof margir kljást við langvarandi eftirköst veikinnar. Það eru beinu áhrifin. Þau eru óbætanleg. Svo er allt hitt. Heimurinn er ekki laus við veiruna og við erum ekki stikkfrí. En getum við skoðað hvers virði það er að ná nýgengi smita í landinu niður í algjört lágmark á ný?
Eftir kostnaðarsamt og viðamikið átak í vor tókst að ná innanlandssmiti niður í ekki neitt. Við gátum andað léttar, grímulaust. Fæstir höfðu hug á því að hendast til útlanda, enda nóg í boði heima fyrir. Við gátum aftur hitt vini, jafnvel faðmast. Hleypt gamla fólkinu okkar út úr sjálfskipaðri sóttkví. Ferðast um landið. Sótt samkomur og listviðburði með varúð. En: það varð að „opna landið“. Sem var reyndar opið fyrir, þó flugferðir væru strjálar. Ferðamenn höfðu hinsvegar ekki áhuga á að eyða fríinu í tveggja vikna sóttkví og ferðaþjónusta og flug var í uppnámi. Eins og allsstaðar í heiminum. Pressan var mikil frá þessum aðilum þó það væri reynt að gera opnun landsins að óumflýjanlegri allsherjar nauðsyn. Það var vitað fyrir að landamæraskimun næði aldrei öllum smituðum. Já, og svo voru blessuð börnin ekki skimuð. Um leið og við nutum frelsis á ný buðum við smitinu aftur heim. Það gerðu bæði Íslendingar og erlendir gestir okkar. Við erum komin aftur í sama far og í vor, sumpart verra því fæstir voru búnir að jafna sig eftir fyrstu dýfuna. Skólakerfið er í uppnámi, listviðburðum er frestað eða þeim aflýst, íþróttalíf er í biðstöðu, heilbrigðiskerfið komið í vörn og öll okkar umgengni við hvert annað litað af bölvun sóttarinnar.
Það kann að virka sem eigingjörn meinbægni að vilja hefta ferðlög og farmennsku. En stundum er vatnið líka sótt yfir lækinn og eins og bent er á: nú er að vega og meta kosti og galla. Langar mig að faðma ferðamann? Nei, mig langar að faðma vini mína. Bíð ég þess spennt að hitta útlendinga í lauginni? Nei, mig langar að sjá gamla fólkið mitt stunda sína heilsurækt í sundinu áfram, ná aftur þrótti eftir bakslagið fyrr á árinu. Er ég á leið til útlanda? Nei, mig langar að ferðast um Ísland án þess að þurfa að forðast fjölmenna staði (eða verða fyrir öskrum úr hátölurum!). Við vorum rétt að byrja að kynnast landinu okkar á ný eftir yfirtöku ferðamanna síðastliðin ár.
Við gerðum tilraun. Hún fór svona. Streymi fólks til og frá landinu ætti ekki að vera í boði nema með ströngum skilyrðum í smitvörnum. Ferðaþjónustan, sem var ef til vill í of hröðum vexti, verður að laga sig að nýjum tímum – eins og annars staðar í heiminum. Atvinnuleysi er hörmulegt, en rétt eins og við vissum ekki að ferðaþjónustan yrði atvinnuvegur svo margra, þá vitum við ekki hvaða tækifæri bíða í jafnvel allra nánustu framtíð. Við eigum að njóta þess að við búum á eyju og að fámenninu og landrýminu fylgir magnað frelsi. Það þarf enginn að óttast lokun landsins til eilífarnóns, fyrir utan þá staðreynd að tæknin hefur gert jarðarkúluna að landamæralausu samskiptasvæði.
Staðreynd: við höfum val um mikið/talsvert smit eða lítið/ekkert smit. Fárið stjórnast af harðari / slakari sóttvörnum. Smitstaðan hefur áhrif á daglegt líf okkar. Við verðum að láta í ljós hvaða lífi við viljum lifa: við viljum mennta börnin okkar, njóta eðlilegra samvista, stunda íþróttir, sækja leikhús og tónleika, stunda verslun og viðskipti; þora að nálgast náungann, þekkja takmörkin og virða þau – gleðjast saman og eiga samskipti án ótta og kvíða. Hamingjuna nærum við með þessum einföldu þáttum í lífi okkar. Hvers virði er hún?
Myndirnar: Myndin hér efst er úr Vatnsdalnum. Myndirnar fyrir neðan eru frá Kálfshamarsvík. Þar rakst ég á þessar ömurlegu menjar fáránlegust auglýsingaherferðar sem gerð hefur verið síðan einnar-nætur-gaman í Reykjavík var auglýst. Í Kálfshamarsvík er fögur náttúra og áhugaverð staðarsaga, kyrrð, fuglalíf, himinn og haf – og skærgulur öskurhátalari. Ólýsanlega heimskulegt. Gerum eitthvað betra.
The photos: (Sorry, no translation for my main blog post this time). The photos are from NW-Iceland, Vatnsdalur (above) and beautiful Kálfshamarsvík (below) – a victim of one of the worst advertising campaigns for tourism in Iceland, ever! I will not link to the campaign here, but the idea was that people could record their screaming and shouting to be broadcasted in remote, peaceful places in Iceland. Bad idea. Very bad. Luckily I was not screamed at – so I could enjoy the sound of the sea and the many birds living close to the old lighthouse.


Ljósmyndir teknar | Photo date: 30.07.2020