Ég þjáist af eftirkosningaþunglyndi. Fráfarandi ríkisstjórn féll vegna hneykslismála í tengslum við kynferðisafbrot gegn ungum stúlkum, en hlutaðeigandi þingmenn og ráðherrar voru kosnir aftur á þing. (Svo ekki sé minnst á aðra holdi klædda siðferðisbresti á þingi). Konum á Alþingi fækkaði í kosningunum 2017. Þær eru nær helmingi færri en karlarnir. Það veitir því sannarlega ekki af því að hressa upp á baráttuna gegn rammskökku valdahlutfalli kynjanna á Íslandi.
Mig langar til að brýna kynsystur mínar til dáða. Til stöðugra andmæla, til þess að láta jafnvel ekki minniháttar yfirgang líðast. Stöndum keikar! Styðjum og hvetjum unga fólkið! Ekki bara með harmsögum heldur líka með sögum af konum sem þora. Ég dáist að stúlkunum og fjölskyldum þeirra sem stigu fram, höfðu hátt og breyttu atburðarás sögunnar. Þær þorðu. Það hlýtur þó að vera erfitt að horfa upp á hve lítil áhrif kuskið á hvítflibbunum hefur. En ég-líka-bylgjan (#metoo) sem fór um heiminn á sama tíma sýndi að mælirinn er löngu fullur.
Auðvitað berast þá að raddir sem verða hreint endilega að malda í móinn. Eins og að dólgsháttur sé dýrmætasta birtingamynd tjáningafrelsisins og að frelsi einstaklingsins muni aldrei þrífast nema það megi líka vera mannskemmandi. Það virðist ekki mega hafa hátt og segja nei, það nægir ekki að fordæma óhæfuna, það er ekki nóg að segja: nú get ég ekki meira. Konur eru settar í sakborningastúkuna og eiga að svara fyrir guði og djöfla: hvað tilheyrir hvorum, er ekki djöfullinn líka í konunni? Einmitt. Endilega. Beinum athyglinni annað, við erum öll sek. Að því sögðu, megum við þá aftur víkja að þessu með valdið og áreitið, niðurlæginguna og ómenninguna? Við erum nefnilega þúsundir, milljónir, milljarðar kvenna, sem því miður höfum allt of líkar sögur að segja.
Karl með spaug og kona með hníf
Fyrsta sumarvinnan mín eftir að ég byrjaði í menntaskóla var við afgreiðslustörf í stórri matvöruverslun. Þetta var sumarið 1980. Ég hafði unnið nokkrar vikur í sauðfjársláturhúsi og auðvitað öll venjuleg störf heima í sveitinni og þótti því kjörinn starfskraftur í kjötdeildinni, laus við allan tepruskap þegar kom að holdi og blóði. Kjötborðið í versluninni var þekkt fyrir að vera afbragðsgott, þarna komu stíflakkaðar og pelsklæddar frúr (já, þær skörtuðu sínu besta þó það væri sumar) og keyptu „tartar“ (þá þurfti ég að leita ráða og þýðinga hjá mér eldri og reyndari), eða létu hakka nautalundir í kjötdeig fyrir sig og sína, gott ef ekki kjölturakkana líka. Þetta var lærdómsríkur tími.
Verslunarstjórinn stormaði reglubundið um búðina og stjórnaði ekki hvað síst með nærveru sinni. Ég skynjaði að sumum stóð stuggur af manninum. Ekki síst á mánudögum þegar í gustinum brá fyrir áfengisdaun. Það var ljóst hver réði og að við vorum undirmenn, en mest unnu þarna konur. Sem nýliði taldi ég auðvitað rétt að bera hæfilega virðingu fyrir yfirmanni í ábyrgðarstöðu og fylgdist með ábendingum og ákúrum. Ég man ekki eftir því að neinum væri hrósað. En svo var það þetta furðulega fyrirbæri sem fylgdi ferðum verslunarstjórans um búðina, gjarnan þegar viðskiptavinir voru fáir: starfskonurnar hvíuðu og skræktu þar sem hann fór um. Sumar hlógu, aðrar hljóðuðu. Ég komst fljótt að því hvað olli fjaðrafokinu. Yfirmaðurinn lét ekki duga að benda á hvernig niðursuðudósirnar mættu betur fara í rekkunum heldur notaði hann tækifærið, þar sem konurnar bogruðu við kassa og hillur, og kleip þær í rassinn! Hann smaug fram hjá afgreiðsluborðum og kleip stelpurnar. Ég átti ekki til orð. Í alvöru? Hvað…? Af hverju…? Klípa í rassinn? Gera þeim bylt við þar sem þær voru á kafi í vinnu? Leita á þær? Átti þetta að vera fyndið? Hæfilega virðingin var fokin út í veður og vind.
Ég ákvað að leita ráða hjá reyndri samstarfskonu í kjötdeildinni. Anna var hörkudugleg, úrbeinaði stórgripi og saxaði eins og stormur, pakkaði öllu á methraða, hrærði rækjusalat og ítalskt salat (þið munið: niðursoðnar gulrætur og grænar baunir og soðnar makkarónur í majónesi) eins og heil deild í mötuneyti. Anna skutlaði til kjötstykkjum en ég áræddi að trufla hana og spurði gáttuð:
– Klípur hann alla svona?
– Ekki karlana, sagði Anna. – Og ekki Þóru, bætti hún við og kinkaði kolli til elstu og reyndustu konunnar í kjötinu.
Hún var að sönnu ekki árennileg. Ég hefði ekki reynt að kássast upp á Þóru á nokkurn hátt. Ég taldi í huganum: örfáir karlar, kannski tveir, unnu í versluninni. Og Þóra slapp.
– En þig?
Anna hætti að saxa gúllaskjötið og snéri sér að mér:
– Hann gerði það einu sinni og þá sagði ég að ef hann reyndi þetta aftur myndi hann finna fyrir þessum!
Blóðugur hnífurinn stóð eins og spjót á milli okkar.
Þessi kona var mín fyrirmynd! Vinstri höndin var brynjuð stálnethanska og sú hægri sveiflaði blóðugum kjöthníf. Einmitt! Reyndu bara að káfa, karl minn! Ég var staðráðin í því að láta ekki bjóða mér klípurnar, en óafvitandi reyndi ég líka að forðast að verða á vegi yfirmannsins. Svo kom að því að ég var á kafi í kótelettupökkun fyrir annasama helgi. Ég raðaði í plastbakka, feitustu eða lélegustu kóteletturnar aftast, þær kjötmestu og fallegustu fremst, plastað yfir og lokaði á hitaplötunni. Það þarf að hafa báðar hendur á pakkningunni þegar plastið er rifið og brotin hituð á botninum – þetta vita allir sem hafa unnið við þetta merkilega starf, að pakka inn í plastfilmu með vél. Og sem ég stend þarna, kappsfull við kóteletturnar, rennir durturinn sér að mér og klípur mig í rassinn. Var ég yfir höfuð með rass, sautján ára spíra?
Hvar var kjötsaxið? Öll vopn fjarri og ég föst við pökkunarvélina. Átti ég að hóta því að rúlla honum upp í plast? Hæpið að hóta drjóla vel á annan metra og örugglega yfir 100 kílóum. Ég var samt búin að ákveða að spyrja hann að einu, sem ég gerði:
– Tilheyrir þetta vinnunni?
Það kom smá hik og svo svaraði hann með þjósti um leið og hann skundaði burt:
– Já!
Hvort sem það var þessi spurning eða það að ég æpti ekki undan klípunum (því ég geri ráð fyrir að hljóðin í konunum hafi gefið honum kikk), þá var ég ekki áreitt aftur af þessum yfirmanni mínum. En hann hélt uppteknum hætti við annað kvenfólk sem starfaði þarna þetta sumar og ég var aldrei almennilega í rónni þegar hann var nálægt. Ég fyrirleit manninn innilega og þegar hann seinna var af mörgum dásamaður sem helsti verslunarfrömuður Íslands lagði ég lykkjur á leiðir mínar til að sneiða hjá verslunum í hans eigu. Svona get ég verið fullkomlega húmorslaus.
Athugasemdir: Anna og Þóra eru ekki rétt nöfn.
[Sorry! No English translation available! Well, it’s a long story and a lot of crap …]