Hafið | Following the waves

Föstudagsmyndir – með röfli dagsins: Það er föstudagur og veðrið í borginni dásamlegt. Himinninn heiður og góðviðrisblár, svolítið mistur í suðri og inn um glugga berst fjörugt fuglatíst úr reynitrjánum þar sem naktar greinar svigna af rauðum berjum eftir gróðursælt sumar. Þar er veisla. Það er óvenju hlýtt, miðað við árstíma …

Sem oftar hefur mér dottið í hug að smella ljósmynd inn á bloggið í vikulok. Velja mynd, skrifa smá texta. En það stendur eitthvað í mér. Bæði að njóta veðursins og að verða eitthvað úr verki yfirhöfuð. Ritstífla, sköpunarfælni? Tja … Frammistöðukvíði? Já, já, það má alltaf finna einhverja kvöl og pínu tengda listsköpun. Ekkert nýtt þar.

Ég er bara… öhh… pirruð. Eins og flestir fylgist ég með umræðu um umhverfismál, með tilheyrandi kvíða og sektarkennd – en sú depurð er auðvitað engum og engu til gagns. Ég gæti teiknað upp tvo dálka, annan með heiðri og hinn með skömm: dregið í dilka vistspor mín í lífinu. Sumt hef ég ráðið við og tekið meðvitaða og upplýsta ákvörðun um og eitt og annað hefur komið af sjálfu sér. Margt hefur mér reynst erfitt að ráða við. Undir það fellur samábyrgð (samsekt) og hlutdeild mín í þjóðfélagi sem hefur löngum haft að sínum einkunnarorðum þetta fornkveðna og fáránlega: lengi tekur sjórinn við og þetta reddast.

Það er svo sem ekki séríslenskt að telja sig og samfélagið sem maður tilheyrir vera stikkfrí og utan við hin ýmsu jarðarstríð. En þarna kemur pirringurinn. Ég missi allt þol. Ítrekað koma fram einhverjir sjálfumglaðir hrokagikkir sem gera lítið úr umhverfisvanda jarðarinnar og hæðast að þeim sem berjast fyrir bættum heimi – eða öllu heldur: breyttum heimi. Mestu bjánarnir og böðlarnir eru illu heilli valdamenn eins og Trump og Putin, en álitsgjafar á Íslandi eru stundum síst skárri. Náttúru- og umhverfisvísindamenn hafa lengi mátt þola að vera þaggaðir niður, jafnvel keyptir og kúgaðir til að tala gegn betri vitund, enda vísindin oft í mótsögn við ráðandi samfélagsgerð, veraldarskipan sem byggir á ofneyslu, misskiptingu og græðgi. Baráttufólk í náttúruverndarmálum hefur verið haft að háði og spotti og baráttumálin smættuð og einangruð.

Já, það er væri nú meiri ógnin ef við þyrftum „að reyna að lifa eins og í sænskri hippakommúnu“. Heimurinn er ekki að farast, nei, hann hefur alltaf verið á heljarþröm, segja aðrir. Það var nú til dæmis eitthvað annað þegar fjörusúpandi karlar í krapi máttu þola kjarnorkusprengjuógnina hangandi yfir sér. Þá var þannig hlaðið í vopnabúr Vesturlanda að gereyða mátti öllu lífi á jörðinni margsinnis. Einmitt. Rifjum það upp. Ég man gjörla eftir þessum kjarnorkukvíða á uppvaxtarárunum, skelfingu sem efldist reyndar bara þegar ég fylgdist með Tjernobyl-slysinu í beinni útsendingu á sínum tíma. Kjarnorkuógnin var raunveruleg. Fjöldi fólks mótmælti og barðist, árum og áratugum saman. Þar fór hugsjónafólk fram með margvísleg mótmæli, vísindamenn og almenningur, börn og ungmenni, og sjálfsagt í „óviðeigandi pólitískri baráttu á heimsvísu“ – ef veraldarvefurinn hefði speglað það allt. Þrýstingur og barátta friðarsinna og náttúruverndarfólks hefur skipt sköpum í sögunni. Stjórnmálamenn finna sjaldnast upp á breytingunum sjálfir. Atómbomban er ekki lengur sama ógnin. Heimurinn fórst ekki. En það er ekki þeim að þakka sem ypptu öxlum og sátu hjá, hvað þá þeim töluðu niður þá sem börðust gegn vitleysunni. 

Þetta reddast ekki neitt. Sjórinn tekur ekki lengur við. En mannkynið ferst líklega ekki, þökk sé þeim sem taka af skarið og spyrna við fótum, þeim sem breyta heiminum. 

Hafið: Það er þörf yfir ljós og leiðarvísa sem aldrei fyrr. Myndirnar af hafinu (sem tekur ekki lengur við) eru teknar við Melaleiti 15. september. Fyrir neðan er Þormóðsskersviti í fjarska, en franska rannsóknarskipið Pourquoi-Pas? fórst þar skammt frá, 16. september, árið 1936. Fjörutíu fórust, þar á meðal franski vísindamaðurinn Jean-Baptiste Charcot. Einn skipbrotsmaður lifði af. Vitinn var byggður á árunum 1941–42.

Photo Friday: This turned out to be my Friday rant – and sorry, no translation available. The photos are taken during a storm and hight tide on 15th September at Melaleiti farm. Above: view to Faxaflói-bay. Below: the lighthouse at Þórmóðs-skerry in the distance. The lighthouse was built in 1941-42, close to where the French exploration ship Pourquoi-Pas? was wrecked 83 years ago, almost to the date, on 16th September 1936. The three-masted barque ship was designed for polar exploration, equipped with a motor and containing three laboratories and a library. Forty men on board died, among them the explorer and oceanographer Jean-Baptiste Charcot. Only one man survived.

Ljósmyndir teknar | Photo date: 15.09.2019