Bókaslóðin | The Path of Books

Teikning á sunnudegi: Þegar ég átti leið í bókabúð um daginn og leit yfir borð og bekki með nýútkomnum bókum, þá leið mér ekki ólíkt því sem ég stæði frammi fyrir hlaðborði af girnilegum réttum. Bókabúðir geta haft þessi áhrif, en eins og við önnur hlaðborð, þá gildir að hrúga ekki of miklu á diskinn. Nema hvað, eitthvað var þarna með öðrum hætti en áður í bókabúðinni og ég gat ekki skilgreint það strax. Mér fannst bækurnar fallegri, meira aðlaðandi, gott ef þær ilmuðu ekki betur en venjulega. Samt voru bókakápurnar ósköp misjafnar þegar að var gáð og sumt á hlaðborðinu myndi fráleitt rata á minn disk. En eftir að hafa gluggað í óvenju margar bækur, handleikið fallegar kápur, kjamsað á góðum setningum og dáðst að góðum myndlýsingum og bókahönnun þá áttaði ég mig á því sem öðruvísi var: plastið, fjandans plastið var farið! Í það minnsta af megni nýju bókanna. Loksins. Og þó fyrr hefði verið. Óskiljanlegt hvað þessi óþarfi hefur liðist lengi á Íslandi. Megi plastpökkun bóka aldrei aftur þrífast!

Þetta vistspor í rétta átt er auðvitað bara partur af því sem útgefendur og höfundar og bókahönnuðir þurfa að taka til endurskoðunar. Höfundur nokkur hampaði nýrri bók og sagði mér frá atviki þar sem hann var atyrtur fyrir að gefa út bók á pappír – það væri úrelt og óvistvænt! Það var og. Myndlýsingin hér fyrir ofan er að fullu unnin stafrænt, þar kom pappír hvergi nærri, enginn litur var skolaður úr pensli. En það er ekki þar með sagt að myndin sé vistvæn, þvert á móti skilja raftæki og rafmagnsframleiðsla eftir sig stór vistspor, þó miklar framfarir séu í þeim efnum. Orðin sem ég skrifa á skjáinn, heimasíðan mín á netinu – allt kostar það orku sem er ekki endilega vistvæn. Þó pappír sparist með rafbókum og upplýsingaveitum, þá vex efnisflóðið stöðugt á netinu, með tilheyrandi vistspori. Í samanburði við prentað efni fyrri tíma er stafrænt efni hreint hamfaraflóð, og mikið af því er efni sem engum hefði til hugar komið að setja á prent.

Það virðist gilda nokkurt jafnvægi á útgáfu rafbóka og prentaðra bóka almennt, hvort tveggja hefur kosti og galla. Pappírinn og prentgripurinn hefur enn mikið aðdráttarafl og margvíslegar rannsóknir sýna mun á raflestri og lestri af pappír – pappírsbókinni í vil og gildir það ekki síst um barnabækur. En eftir því sem ég kemst næst er bókaprentun nær alfarið komin úr landi. Fjölmargar prentsmiðjur á Íslandi geta þó flaggað Svansmerkinu og ættu að vera góður kostur fyrir vistvæna útgáfu. Bókapappírinn er vonandi fenginn úr sjálfbærum skógum og framleiddur með ábyrgum hætti. Verða útgefendur, höfundar og neytendur ekki að gera sambærilegar kröfur til menningarefnis og til dæmis matvæla? Hnífurinn stendur þar auðvitað í kúnni því fæstir vilja borga hinn vistvæna brúsa þegar á reynir, hvað sem umræðunni líður. 

Kannski eru allir útgefendur að leggja drög að vistvænni framleiðslu og ég vona að það megi sjá þessi merki og vottun sem víðast. Nú þegar jólabókaflóðið nálgast má gleðjast yfir góðum bókum, en kannski eru metsölutölur ekki það sem metast á um í framtíðinni – heldur hefja til vegs gæði, aukna samfélagsábyrgð og sjálfbæra, vistvæna framleiðslu. Það má láta sig dreyma. Allt sem við nýtum og notum verðum við að geta skilað aftur til jarðar. Bækur þurfa að vera þannig úr garði gerðar að við mættum í raun skilja þær eftir í skóginum – án þess að skaði hljótist af. Þá getum við virkilega notið þeirrar góðu iðju, að gleyma okkur við lestur bóka sem hjálpa okkur að rata um heiminn og heim. 

Sunday illustration: I made this illustration as I pondered over the ecological footprint of books. (This is the very short version of the text above). It is hard to get the facts straight about e-books vs printed books, obviously both use resources and energy. As does this blog, and the digital illustration above. As I see it, it’s not the question of choosing one over the other, but rather to make both kinds as eco-friendly as possible. The printed children’s book still wins over the e-book according to most research concerning engagement, comprehension, vocabulary development, etc. I like the digital media, but I love the paper book, the book as an object. When it comes to printed books we should in theory be able leave the books in the woods, or give them back to nature after their hopefully long life helping us to find our way in world.

Bókaslóðin | The Path of Books – mynd | Illustration: © Áslaug Jónsdóttir 2019