
Áramót – 2021 kvatt: Iðulega hef ég ætlað mér að skrifa einhverskonar annál í lok árs en það hefur ekki tekist hingað til, kannski sem betur fer. Það væri kvöl að velja hápunkta ársins, afrekin ekki önnur en að sinna vinnu á ýmsum vígstöðvum – og sem ég nýt í botn – en ég myndi gleyma að nefna mann og annan, konu og kvár, ég myndi gleyma og svo muna seinna… Til upprifjunar hefði ég ekki aðra dagbók en mislanga og mis-smásmugulega minnislista sem ég skrifa: fulla ef endurtekningum og hvunndagsgjörningum. Hvað ætli annars sitji eftir í minninu? Tæplega hvað var í matinn eða hverjum ég sendi vinnuskeyti… Eru það mikilsverðir áfangar, gleðin og góðu stundirnar eða kannski ógleymanleg leiðindi? (Árið 2021 hefur nú aldeilis átt sína spretti þar). Hvað er þess virði að halda á lofti? Yfirleitt sjáum við ekki það sem máli skiptir fyrr en löngu seinna, breytingarnar sem skipta sköpum, vendipunktana sem fleyta okkur áfram inn í framtíðina.
Sennilega eru ljósmyndirnar mínar skástu dagbækur. Þær eru þó af ýmsum toga: iðulega eru myndefnin sérvalin og sjónarhornið sömuleiðis og þannig verða myndirnar á sína vísu óáreiðanlegar heimildir og valin minning. Ég læt því vera að draga árið saman í myndum – en birti sem áramótakveðju myndir frá heimsókn á Þingvelli í lok desember. Og sjá og sjá: gull okkar og gimsteina! Þetta var altént einn af góðu dögum ársins, hvernig sem á það var litið. Gott veður, góður félagsskapur, nesti og næði, logn og blíða. Sólin reis einhverjar þrjár gráður eða svo upp á himininn og skein yfir hrímaða vellina. Það var fegurðin ein.
The photos: Þingvellir, Öxarárfoss, ice crystals in a field of grass at Þingvellir National Park.
Ljósmynd dags. | Photo date: 27.12.2021