
Viðurkenning: Samtökin IBBY á Íslandi veittu á dögunum „Vorvinda“, eða sínar árlegu viðurkenningar vegna barnamenningar. Á heimasíðu IBBY segir: „Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu og því sem vel er gert innan barnamenningar.“ Upphaflega voru þessar viðurkenningar veittar að vori, eins og nafnið bendir til, en heimsfaraldurinn aftraði því í ár, eins og fleiru.
Athöfnin var í Borgarbókasafninu Grófinni, sunnudaginn 19. september 2021, og þar fengu eftirtaldir viðurkenningu, eins og segir frá í frétt á vef IBBY og hér á vef RÚV:
Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur, fékk viðurkenningu fyrir að hafa síðastliðinn áratug sannað sig sem einn okkar fremsti barnabókahöfundur. Hún hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með lestarhvatningu ýmiskonar og er öflug talskona barnabókmennta í umræðunni á Íslandi.
Áslaug Jónsdóttir, mynd- og rihöfundur hlaut Vorvinda fyrir framlag hennar til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina. Þá sérstaklega fyrir myndversið Sjáðu! þar sem lesendur fylgja börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli með fallegum myndlýsingum.
Kristín Ragna Gunnarsdóttir rit- og rithöfundur hlaut viðurkenningu fyrir að miðla goðsögum til barna í gegnum bækur sínar og myndlýsingar sem og með töfrandi og fræðandi barnasýningum.
„7. bekkur mælir með” og Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir. Nemendur og foreldrar í Fossvogsskóla hljóta Vorvinda fyrir bókaklúbb og tímaritsútgáfu. „7. bekkur mælir með”. Þriðja veturinn í röð eru nemendur í 7. bekk í Fossvogsskóla með bókaklúbb og gefa jafnframt út tímarit með bókaumsögnum sínum. Blaðið kemur út mánaðarlega og er dreift til allra í árgangnum.

Að auki var ég heiðruð með þessum texta:
„Myndir og bækur Áslaugar Jónsdóttur eru fyrir löngu orðnar þekktar, jafnt innan sem utan landsteinanna. Frá því að fyrsta bók hennar kom út árið 1990 hefur Áslaug starfað ötullega að barnamenningu sem mynd- og rithöfundur og einnig sem grafískur hönnuður og myndlistamaður. Áslaug hefur skrifað og myndlýst fjölda bóka, samið barnaleikrit og tekið þátt í sýningum erlendis og á Íslandi, en hún er hvað þekktust fyrir myndlýsingar sínar í sögunum Litla skrímsli og Stóra skrímsli, sem hún skrifaði ásamt Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Meðal annarra bóka hennar má nefna Ég vil fisk sem hún skrifaði og myndlýsti og einnig myndlýsingar hennar í Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason sem löngu eru orðnar sígildar og órjúfanlegur hluti af sögunni um hnöttinn bláa.
Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til barnamenningar, m.a. Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Íslensku bókmenntaverðlaunin. Eins hefur hún verið á heiðurslista IBBY, sem og tilnefnd til ALMA og H.C. Andersen verðlaunanna.
Þó Áslaug hafi hlotið ýmsar viðurkenningar fram að þessu og að verk hennar séu orðin sígild í bókahillum heimilanna, þá langaði stjórn IBBY að þessu sinni að veita Áslaugu Vorvindaviðurkenningu fyrir framlag hennar til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina.
Það vill svo til að á þeim litla örmarkaði sem Ísland er, koma út mjög fáar íslenskar bækur á hverju ári fyrir okkar allra yngsta fólk og það getur komið niður á fjölbreytileika bókanna. Þó er svo gríðarlega mikilvægt að næra þennan hóp lesenda framtíðarinnar með fjölbreyttu efni af ýmsum toga. Það starfar enginn að barnamenningu nema að viðkomandi hafi brennandi áhuga og ástríðu fyrir því starfi sem oft og tíðum getur virst sem hreint og beint hugsjónastarf. Það fer ekki á milli mála í verkum Áslaugar að hún brennur fyrir bókmenntum yngstu kynslóðarinnar, bæði þeirra sem eru enn ólæs sem og þeirra sem eru farin að vinna sig í gegnum stafina og lesa sjálf. Og þar spila myndirnar lykilhlutverk. Flæði texta og mynda gengur einstaklega vel upp í verkum Áslaugar, en að þessu sinni langar okkur að þakka henni sérstaklega fyrir myndaversið Sjáðu! sem kom út haustið 2020.
Í Sjáðu! fylgja lesendur börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli. Frásögnin er leikandi létt og skemmtileg, óvænt, fyndin og spennandi. Myndir og knappur textinn flétta sama sögu sem hrífur lesandann með sér. Sjáðu! hentar vel fyrir margendurtekinn lestur eins og svo oft vill verða með lesendahóp á þessum aldri og sagan dýpkar við hvern lestur. Lesandinn uppgötvar sífellt eitthvað nýtt og getur jafnvel leikið sér sjálfur með því að segja söguna með sínum eigin orðum. Lesturinn örvar málþroska og stækkar heim hins unga lesanda. En ekki síst býður lestur bókarinnar upp á dýrmæta og gefandi samverustund hins unga og hins eldri lesanda.
Það er dýrmætt fyrir okkur að í bókaflóruna bætist við nýjar íslenskar bækur fyrir lesendur framtíðarinnar. Við erum þakklát fyrir verk Áslaugar fyrir okkar yngsta fólk og einnig fyrir okkur sem eldri erum og fáum að njóta verka hennar. Það er því okkur sannur heiður að veita Áslaugu Jónsdóttur Vorvinda viðurkenningu IBBY 2021 fyrir framlag hennar til barnamenningar á Íslandi.“ – texti: Linda Ólafsdóttir fyrir IBBY á Íslandi.
Honour: IBBY Iceland annually presents the Vorvindar award for outstanding work in the field of children’s books and/or cultural activities especially aimed at children and this year there was an award ceremoni at Reykjavík City Library in Grófin on Sunday September19, 2021.
There were four happy recipients of the awards: author Arndís Þórarinsdóttir, author/illustrator Áslaug Jónsdóttir, author/illustrator Kristín Ragna Gunnarsdóttir, and a group of 7th grade students and their teacher Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir, who publish a monthly magazine with book reccommenations and reviews for their fellow students.
My book Sjáðu!, a board book for the youngest readers, was especially mentioned in the statement for the award.
SJÁÐU! – tenglar | LOOK! – links:
♦ Útnefning á Heiðurslista alþjóðlegu IBBY samtakanna 2022. Sjáðu! tilnefnd fyrir myndlýsingar.
♦ Nomination for the IBBY Honour List 2022. Sjáðu! (Look!) is nominated for illustration.
♦ Tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2021. Umsögn dómnefndar: „Sjáðu! er rímað myndavers þar sem tvö brosmild börn leiða yngstu lesendurna í ferð um borg og sveit, um heima og geima. Á hverri opnu birtist ný veröld þar sem ægir saman spennandi dýrum, þjóðsagnaverum og ævintýrapersónum. Orðaleikir og litríkar myndirnar kalla á spurningar og vangaveltur um allt sem fyrir augu ber; önd með hatt, ástfangna skessu, glaðar ruslatunnur og brosmildar kýr. Myndir Áslaugar eru ævintýralegar og fullar af lífi og kallast skemmtilega á við kveðinn textann svo úr verður fjörugur leikur fyrir börn og fullorðna saman.“
♦ Nomination for The Reykjavík Children’s Book Awards 2021.
♦ Tilnefning til Fjöruverðlaunanna 2021 – frétt og umsögn dómnefndar á vef.
♦ Nominated to Fjöruverðlaunin, the Icelandic Women’s Literature Prize 2021. Fjöruverðlaunin – judges review.
♦ Bókadómur: „Harðspjalda gullmoli“ ★★★★★ – Lestrarklefinn.
♦ Book review: „A gold nugget of a board book.“ ★★★★★ – Lestrarklefinn.
♦ Bókadómur: „Myndirnar er fullar af leik og ímyndunaraflinu gefinn laus taumurinn, þær vekja undrun og áhuga og barnið sem hlustar getur leitað að hlutunum sem nefndir eru í þulunum og tekið þannig virkan þátt í lestrinum. Tónninn í textanum er léttur og glaðlegur, og hann er auk þess einstaklega fallegur.“ – Bókmenntavefurinn.
♦ Book review: “The pictures are full of play and the imagination is unleashed, they arouse wonder and interest and the child who listens can look for the things mentioned in the rhymes and thus take an active part in the reading. […] The tone of the text is light and cheerful, and it is also beautiful.” – The Icelandic Literature Web.
Information in English – publishers catalog – Forlagid Rights Agency.
Sjáðu! í vefverslunum | Sjáðu! in online bookshops:
Forlagið vefverslun | Penninn Eymundsson | Bóksala stúdenta